Verkefni ársins
2018

Hafnartorg

 

12. október 2018 markaði ákveðin tímamót í verslunarsögu miðborgar Reykjavíkur með opnun H&M og H&M Home á Hafnartorgi en samhliða opnun þeirra verslana opnaði fyrsti áfangi Hafnartorgs. Með þessum merkilega áfanga sneri verslun í miðborginni vörn í sókn og nú er lifandi tenging að skapast frá gamla miðbænum yfir á svæðin kringum Hörpu og höfnina. Reginn er eigandi alls verslunarhúsnæðis á Hafnartorgi og leggur áherslu á að skapa þar einstakt verslunar- og þjónustusvæði til framtíðar með iðandi mannlífi og lifandi göngugötum.

Næsta vor munu svo fleiri spennandi alþjóðlegar verslanir opna á Hafnartorgi auk þess sem um 1.100 bílastæði munu bætast við í kjallaranum undir svæðinu með tengingu við bílakjallara Hörpu.

Framkvæmdir við Austurhöfn (reit 5b) ganga vel en líkt og með Hafnartorg þá er Reginn eigandi alls verslunar- og þjónusturýma í þeirri byggingu. Áætlað er að Reginn fái þau rými afhent á haustmánuðum 2019 til að hefja framkvæmdir og gert er ráð fyrir að starfssemi í þeim hefjist vorið 2020. Reginn mun leggja áherslu á úrval veitingastaða í þeim leigurýmum sem staðsett eru næst höfninni en þar mun verða aðstaða til útiveitinga með útsýni yfir Reykjavíkurhöfn. Undirbúningur útleigu á þessum leigurýmum er þegar hafinn og fer vel af stað nú þegar uppsteypu á húsunum er að mestu lokið.

Smáralind

Smáralind hefur á síðustu árum verið leiðandi í því að fá til landsins sterk alþjóðleg vörumerki, árið 2018 var enging undantekning á því. Gerðir voru tímamóta leigusamningar við þekkt vörumerki s.s. H&M Home og New Yorker sem opnuðu seint á árinu 2018 og einnig var skrifað undir húsaleigusamninga við vinsælu, alþjóðlegu vörumerkin Weekday og Monki sem munu opna vorið 2019. Þessi Skandinavísku vörumerki munu koma til með að vera afar spennandi viðbót í verslunarflóru Smáralindar og laða að sér fjölda viðskiptavina sem þekkja þessi vörumerki af góðu einu.

Allar þessar breytingar, sem og breytingar á samsetningu verslana, hefur haft mjög jákvæð áhrif á gestafjölda og frá árinu 2015 til 2018 hefur gestafjöldi aukist um 15,2%, Útleiguhlutfall Smáralindar í lok árs 2018 var rúm 98% sem þykir frábært í alþjóðlegum samanburði. Hlutfall alþjóðlegra verslana og veitingastaða í Smáralind er mjög sterkt og hefur aukist jafnt og þétt á síðustu árum og er í dag um 50% af verslunar-fermetrum Smáralindar.

Ímynd vörumerkisins Smáralind hefur styrkst gríðarlega og var það staðfest með niðurstöðum Fyrirtækjakönnunar Gallup, þar sem Smáralind var hástökkvari ársins 2018 þegar kemur að viðhorfi fólks til vörumerkja. Smáralind stökk úr 63. sæti í 22. sæti af 343 mældum fyrirtækjum. Stórkostleg viðurkenning á því frábæra starfi sem unnið hefur verið innan veggja Smáralindar., enn bættari ásýnd og ímynd fyrirtækisins út á við.

Árið 2018 einkenndist af áframhaldandi framkvæmdum í Smáralind sem hófust árið 2016 með breytingum á Hagkaupssvæðinu. Áhersla var lögð á að klára SA inngang með sama sniði og aðra innganga í Smáralind sem eru mjög vel heppnaðir og fengið hafa einstaklega góða dóma hjá viðskiptavinum, sem og leigutökum.

Traxon ljósaskilti voru sett upp við tvo af aðalinngöngum Smáralindar og þar er hægt að koma einföldum skilaboðum til viðskiptavina og auka þannig á fyrstu upplifun viðskiptavinarins og bæta ásýnd hússins. Sérhönnuðu skjástandarnir fyrir auglýsingar og vegvísa, hlutu verðskulduð, alþjóðleg hönnunarverðlaun á árinu. Á svipuðum tíma voru auk þess settar upp glæsilegar nýjar merkingar, sem og leiðarvísar og ruslatunnur, inni í Smáralind, allt í samskonar útliti og skjástandarnir.

Smáralind hefur háleit markmið um að vinna frekar að grænum lausnum og hefur m.a. hússtjórnarkerfi Smáralindar verið endurnýjað og uppfært með það að leiðarljósi að spara umtalsverða orku með betri hitastýringu. Skipt var út um 80% af öllum halogen ljósum í sameign Smáralindar yfir í LED lýsingu ásamt endurnýjun á allri neyðarlýsingu hússins.

Unnið hefur verið í bílastæðalausnum til að vega upp á móti þeim bílastæðum sem við missum, vegna framkvæmda við Smárabyggð á næstu mánuðum. Kannaðir hafa verið möguleikar á að byggja bílastæðahús norðan megin við Smáralind fyrir allt að 600 bílastæði sem munu skapa Smáralind enn sterkari stöðu hvað varðar bílastæði við verslunarmiðstöð. Framundan er ætlunin að klára þau verkefni sem eru nú þegar í gangi og má segja að meginþungi framkvæmda sem hafa verið í gangi frá 2016, muni ljúka á vormánuðum 2019.

Mörg stór verkefni eru þó framundan, en þessa dagana er verið að undirbúa stækkun Smárabíós um 4 nýja kvikmyndasali ásamt skemmtilegum endurbótum á öllu því svæði sem skapa mun Smáralind tækifæri til vaxtar og aukningu gestafjölda en Smáralind ber höfuð og herðar yfir keppinauta sína þegar kemur að afþreyingu samkvæmt könnunum.

Leiguverkefni fyrir opinbera aðila

Opinberar stofnanir og sveitarfélög eru stærstu leigutakar Regins. Reykjavíkurborg er stærsti leigutakinn og Ríkissjóður annar stærsti. Þessi staða er ekki fyrir hendi af tilviljun. Allt frá árinu 2012 hefur það verið eitt að meginmarkmiðum félagsins að auka hlutfall opinberra aðila sem leigutaka.

Árangurinn er tvíþættur þ.e. félagið hefur náð afburðarárangri í þeim fjölmörgu leiguútboðum sem Framkvæmdasýsla ríkisins hefur stýrt fyrir hönd ýmissa ríkisstofnana. Ennfremur hefur verið fjárfest í eignasöfnum þar sem opinberir aðilar eru leigutakar.

Reginn hefur á s.l. árum tekið þátt í allflestum útleiguverkefnum þar sem hið opinbera hefur auglýst eftir húsnæði til leigu. Reginn hefur gengið vel að ná verkefnum og m.a. landað samningum við Útlendingastofnun, Ríkissaksóknara, Þjóðminjasafnið, Sýslumanninn á Höfuðborgarsvæðinu, Vinnueftirlitið, Dómstólasýsluna og nú síðast Tryggingastofnun. Árið 2018 bauð Reginn auk húsnæðis fyrir Tryggingastofnun Ríkisins einnig húsnæði fyrir höfuðstöðvar Vegagerðarinnar, Samflutning þjónustumiðstöðva (GRR og ÞÞM) og Geðheilsuteymi Austur en ekki liggur fyrir við hvern samið verður um þau verkefni.

Nýjasta verkefnið fyrir ríkisstofnun er leigusamningur við Tryggingarstofnun ríkisins um leigu á Hlíðasmára 11 í Kópavogi. Síðastliðna mánuði hefur verið unnið að uppfærslu og endurinnréttingu húsnæðisins og er áætlað að Tryggingastofnun flytji inn í húsnæðið í endaðan febrúar n.k. Hlíðasmári 11 er um 2.600 fermetra skrifstofuhúsnæði á fjórum hæðum, byggt árið 2000. Leigusamningurinn er til 25 ára og ásamt því að eiga og leigja út húsnæðið sér Reginn um ákveðnar skyldur við rekstur húsnæðisins. Það hefur færst í vöxt að undanförnu í leiguverkefnum á vegum hins opinbera að auknar skyldur séu gerðar til leigusala um rekstrarþætti, svo sem rekstur húskerfa, almennt viðhald, snjómokstur o.s.frv. Reginn hefur mikla þekkingu og reynslu á sviði fasteignarekstrar og því tækifæri fyrir félagið sem og leigutaka að láta Reginn sinna þessum skildum.

Egilshöll

Egilshöll er orðin nokkurs konar samfélag þar sem allt snýst um íþróttir, afþreyingu og heilsu. Egilshöll hýsir nú tvo knattspyrnuvelli í fullri stærð, fullbúið skautasvell, nýtt og vel útbúið fimleikahús, alhliða íþróttahús fyrir boltaíþróttir, bardagaíþróttasali, æfinga- og keppnisaðstöðu fyrir skotíþróttir, skrifstofur Fjölnis, dans og æfingasali, líkamsræktaraðstöðu af bestu gæðum, 24 brauta keilusal, fullkomið kvikmyndahús með fjórum sölum, veitingastað, þjónustumiðstöð á sviði endurhæfingar og heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Auk alls framangreinds eru stoð og tæknirými sem tilheyra starfseminni. Framangreind aðstaða er nýtt daglega af miklum fjölda iðkenda en einnig hafa fjölmörg félög og fyrirtæki aðstöðu í húsinu.

Á árinu 2018 var lokið við byggingu á nýju alhliða íþróttahúsi við Egilshöll sem rúmar handboltavelli og körfuboltavelli ásamt annarri íþróttastarfsemi. Íþróttahúsið var tekið í notkun í september 2018. Með opnun hússins bættist í flóru íþróttatengdrar starfsemi í Egilshöll og aðstaða fyrir handbolta- og körfuboltadeildir Fjölnis bættist til muna.

Einnig voru gerðar endurbætur á Keiluhöllinni og aðstaða við keilubrautir bætt til muna.

Í desember hófst vinna og undirbúningar við breytingar á gamla fimleikasalnum en fyrirhugað er að bæta við 6 búningsklefum ásamt því að útbúa minni íþróttasal til útleigu.

Gestafjöldi í Egilshöll hefur aukist verulega og var gestafjöldi á árinu 2018 rúmlega 1,4 milljónir en það er 36% aukning frá árinu 2015. Gert er ráð fyrir að með tilkomu nýs íþróttahúss muni fjöldi gesta aukast enn frekar en í húsinu æfir nú handbolta- og körfuboltadeild Fjölnis ásamt afrekssviði Borgarholtsskóla.

Á árinu var einnig áfram unnið að endurskoðun á heildarskipulagi Egilshallar með hagsmunaaðilum á svæðinu, þ.e. Reykjavíkurborg og Fjölni, ásamt Regin með það að leiðarljósi að nýta þann ónýtta byggingarrétt sem er á lóðinni fyrir starf sem styður undir þá þjónustu sem staðsett er í Egilshöll.

Rekstur í fasteignum

Í maí mánuði tók Reginn aftur við stjórn og rekstri í fasteignum Regins en árið 2016 hafði þessari þjónustu verið úthýst til ISS Ísland. Hin nýja stoðþjónusta félagsins sinnir nú öllum rekstri í þessum fasteignum fyrir utan ræstingu sem er úthýst að mestu leyti. Um er að ræða eignir eins og Smáralind, Egilshöll ásamt skólum og leikskólum í Hafnarfirði og Garðabæ. Endurskipulagning á þjónustunni þar sem lögð var áhersla á skilvirkari stjórnun, betra upplýsingaflæði og yfirsýn hefur skilað góðum árangri bæði rekstrarlega og þjónustulega. Hluti af endurskipulagningunni gerði félaginu einnig kleift að selja út stoðþjónustu til utanaðkomandi aðila.

Tekin voru mikilvæg skref í átt að umhverfismeðvitaðri rekstri þar sem meðal annars var tekinn í notkun hugbúnaður sem auðveldar eftirlit með orku og sorpkostnað ásamt öðrum aðgerðum til minnkunar kolefnisspors félagsins og hagkvæmari reksturs.