Eignasafn
Regins

Breyting á eignasafninu á árinu

Á árinu 2018 réðst Reginn í stærstu einstöku fjárfestingu félagsins frá upphafi. Kaup á dótturfélögum FAST-1 slhf., þ.e. HTO ehf. og FAST-2 ehf., bætti við sterkum opinberum leigutökum í viðskiptavinahóp Regins. Reginn jók einnig við vöruframboð sitt með hágæða skrifstofuhúsnæði. Fjárfestingin í fyrrnefndum félögum nam alls tæplega 23 milljörðum króna. Eignasafn félaganna telur fimm fasteignir þar sem rúmlega helming tekna er frá opinberum stofnunum og sveitarfélögum. Eignasafn Regins heldur því áfram að styrkjast ár frá ári með nýjum fjárfestingum og þróun á núverandi eignum félagsins.

Í tengslum við kaupin lág fyrir að endurfjármagna þurfti skuldir HTO ehf. og FAST-2 ehf. Var það lykillinn að farsælum viðskiptum að ná að fjármagna þessi stóru viðskipti á sem hagstæðastan máta fyrir félagið. Samhliða kaupum var unnið að því að tryggja félaginu hagstæða fjármögnun eftir að kaupin væru afstaðin. Að kaupum loknum seldi félagið sértryggð skuldabréf með veði í undirliggjandi 5 eignum fyrir alls 17.180 m.kr. Skuldabréfarammi Regins, sem komið var á fót á árinu 2017, sannaði með þessu enn og aftur mikilvægi sitt fyrir félagið og getu þess til að fjárfesta og þróa eigna og lánasafn Regins.

Á árinu 2018 gekk Reginn einnig frá kaupum á útistandandi 45% hlut í FM-húsum, sem fer með eignarhald á grunn- og leikskólum í Hafnarfirði og Garðabæ.

Reginn hélt einnig áfram að umbreyta og þróa fyrirliggjandi eignasafn og nam sú fjárfesting um 7.000 m.kr. á árinu 2018. Má þar helst nefna fjárfesting á Hafnartorgi, Smáralind og Egilshöll.

Matsbreyting - umfjöllun og aðferðir

  • Fasteignasafnið er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla og er stuðst við sjóðstreymisgreiningu eins og tíðkast í fasteignafélögum.
  • Tekjur félagsins eru bundnar í langtímaleigusamningum sem eru verðtryggðir og því breytist tekju- og sjóðstreymi í samræmi við breytingar á vísitölu.
  • Ávöxtunarkrafa eiginfjár og vextir af lánsfjármagni eru uppfærðir miðað við stöðu á markaði. Matsbreyting er því eðlileg færsla á verðmætaaukningu fjárfestingareigna og er stærsti hluti langtímaskulda félagsins verðtryggður.
  • Við útreikning á matsbreytingu er stuðst við líkön og verklagsreglur sem hafa verið staðfestar af óháðum ráðgjafa. Endurskoðendur félagsins og Endurskoðunarnefnd hafa fjallað um og yfirfarið mat á gangvirði.

Virði fasteigna eftir flokkum

Eftir kaupin á HTO ehf. og FAST-2 ehf. stækkar hluti skrifstofuhúsnæðis í eignasafni Regins til muna og vægi annarra atvinnuflokka minnkar. Hluti verslunar- og þjónustuhúsnæðis er komið undir 30%, hluti bæði iðnaðar- og geymsluhúsnæðis sem og hótela er um 8,5% hvort af virði eignasafns Regins. Íþrótta, mennta- og afþreyingarhúsnæði telur tæplega 13% af virði fasteignasafns Regins.

Vægi skrifstofuhúsnæðis í eignasafni Regins er um 40% bæði ef litið er til stærðar í fermetrum og virðis.

Stærð atvinnuflokka

Fjárfestingarstefna undanfarinna ára hefur byggt á því að jafna hlut atvinnuflokka til áhættudreifingar. Stefnan hefur einnig verið að auka hlut leigutekna Regins frá opinberum stofnunum og sveitarfélögum. Með kaupunum á HTO og FAST-2 jókst hluti skrifstofuhúsnæði til muna en að sama skapi hluti leigutekna félagsins frá opinberum leigutökum.

Ef eignasafninu er skipt upp með þeim hætti að húsnæði leigt til opinberra aðila er flokkað sér óháð atvinnuflokki telur það um 23% af heildar fermetrum eignasafn Regins. Það sem eftir stendur er; 27% verslun- og þjónustuhúsnæði, skrifstofuhúsnæði 26%, íþrótta-, mennta-, og afþreyingarhúsnæði 3%, Iðnaðar- og geymsluhúsnæði 16% og hótel 5%. Með þessu móti sést að það jafnvægi sem leitast hefur verið eftir milli atvinnuflokka er enn til staðar og áhættudreifing félagsins mikil.